Um námið – upplýsingar fyrir nema

Ágæti læknanemi.

Velkominn á kúrsus í barnalækningum, sem hefst mánudaginn 20. október 2025

Á síðunni barnalaekningar.hi.is undir flipanum “Um námið” finnið þið ýmsar upplýsingar um námið ásamt fyrirlestraskrá, upplýsingar um skiptingu læknanema á mismunandi deildir Barnaspítala Hringsins, niðurröðun á vaktir, upplýsingar um seminör, klíníkur og fleira. Fyrirlestrar kennara ásamt ásamt fleiri upplýsinum námið eru á sömu síðu undir flipanum “Kennarar og fyrirlestrar” og eru fyrirlestrarnir vistaðir undir nafni kennaranna.

Almennt er klínísk deildarvinna á morgnana, en fyrirlestrar og klíníkur eftir hádegið.  Nemar taka einnig vaktir á kvöldin og um helgar. Frjáls mæting er í fyrirlestra en skyldumæting er í allt verklegt nám.

Kennsla í erfðalæknisfræði fer fram samtíma barnalækningakúrsinum og er að hluta til tengd barnalækningunum.

Kúrsinn er í stöðugri þróun og eru nokkrar breytingar gerðar frá ári til árs. Áfram er að sjálfsögðu unnið að þróun námsins í barnalækningum. Í lok náskeiðsins fáið þið kennslukönnun sem ég bið ykkur um að svara og taka þannig þátt í þróun kennslunnar. Ábendingar um það sem betur mætti fara eru velkomnar. Markmiðið er að gera góðan kúrs enn betri.

Kynning á náminu verður mánudaginn 20. október 2025 kl. 13.00 Ég vil biðja ykkur að mæta í anddyri Barnaspítala Hringsins . Gert er ráð fyrir, að þið hafið þá þegar nálgast sjúkrahúsklæðnað fyrir starfið. Þið fáið afnot af skápum á Barnaspítalnum en þurfið sjálf að koma með hengilás og lykil að honum. Ef hengilásinn verður ekki fjarlægður strax að kúrs loknum verður klippt á hengilásinn.

Varðandi kennslubækur fengum við eftirfarandi upplýsingar frá Bóksölu stúdenta: Kennslubókin Marcande: Nelson Essentials of Pediatrics sem er notuð á námskeiðinu Barnalæknisfræði er fáanleg sem rafbók í vefsölu Bóksölu stúdenta. Eftirfarandi hlekkur leiðir að áðurnefndri rafbók hjá þeim: https://www.boksala.is/ebooks/vs9780323775649/ Prentaða bókin mun einnig vera til í sölu hjá þar í hæfilegu magni.

Það er sameiginlegt markmið læknanema og starfsfólks Barnaspítala Hringsins að kúrsinn verði gagnlegur og ánægjulegur. Við hlökkum til samstarfsins.

Kær kveðja,

Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum, forstöðumaður fræðasviðs Barnaspítala Hringsins, Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Upplýsingar um klínískt nám á Barnaspítala Hringsins

Mat á klínisku námi – hér eru auka eyðublöð fyrir skráningu á klínísku námi

Ritgerðir og ritgerðarefni

Læknanemar leysa þraut með góðumárangri (ætluð börnum 4-7ára ! )